minns

en ekki þinns

miðvikudagur, apríl 19, 2006Ég er nokkuð laginn við að "grípa" hluti með fætinum, eða a.m.k. taka af þeim fallið áður en þeir detta í gólfið og brotna.

Áðan greip ég tómatsneið.

Er ég skipti um sokka sá ég það fyrir mér þegar ég gríp einhverntímann hníf með ristinni.

þriðjudagur, apríl 18, 2006

Update í spennandi sögunni af tölvunni:

Annar "kubburinn" er bilaður!

Ég vona að Apple.is verði ekki með stæla. Helst vil ég fara með kubbinn niður eftir og fá strax nýjan og skella honum beint í. Í tortryggni minni ímynda ég mér þó helst að þeir vilji fá vélina og þroska hana í nokkrar vikur inni á verkstæði hjá sér áður en þeir skipta kubbnum út.

Sjáum til - þeir hafa ekki tekið hana í gíslingu ennþá svo það er líklega ekki ástæða til að æðrast yfir því.

Ennþá.

Bleh. Nú hrynja forrit mín hvert af öðru. Corrupt RAM.

Mikið er ég klár.

Altarið sem ég tilbið guð kryppunnar við, tölvan mín, var farin að láta einkennilega. Hún roðnaði og blés og var orðin þyngslaleg. Það var helst eins og þetta væri hormónatengt.

Ég rambaði inn að glugga í kerfi vélarinnar þar sem upplýsingar eru um "vinnsluminni" hennar. Kvaðst vélin hafa minna af því en ég hélt að ég hefði borgað fyrir, og var minnkunin ein 33%.

Snarlega vippaði ég henni á bakið og lauk upp kviðnum. Þar gældi ég góða stund við spjöld hennar þar til við þóttumst bæði orðin sátt.

Allt gekk upp og þessi fýsíska athygli sem ég veitti henni hefur skilað mér eðlilegri minnisrýmd og ánægðari vél.

Mikið er ég klár.

sunnudagur, apríl 16, 2006

Einu sinni þegar ég var ungur maður og með gáfnafarið í lagi þá hékk ég í Reaktor og rannsakaði innri verkan hljóðgervla.
Nú skoða ég bara slashdot og snýti mér, og þá spyr maður sig auðvitað:

Hvar hafa dagar lífs míns lit sínum glatað?