minns

en ekki þinns

laugardagur, apríl 24, 2004

Jakkafataklæddur á listasýningum sér maður ýmislegt sem ekki er í braut manns á hverjum degi. Lifandi anda í mynd ungrar, vel upp aldrar en passlega dannaðrar konu, bein í baki á jarðbundnum fótum skæddum flottasta parinu úr KRON. Opin augu, vel tennt. Dökk, mild, með spurningu í framan.

Sjitturinn.

Jói nokkur Fel hefur verið dálítið í sviðsljósinu undanfarið. Það skil ég ekki. Maðurinn kann hins vegar að búa til súkkulaðiís hvers fíknistuðull jafnast á við fínasta tékkneskt heróín.

Ísinn er með fíngerðum frostkristöllum og hefur passlega misleita áferð og fjölbreyttara skeiðarviðnám en venjulegur alþýðuís í dollu. Það er því gaman að borða hann. Hann er stífur þó hann sé hafinn að bráðna og molnar smávegis um leið og hann gefur eftir. Það er lítið bragð af ísmassanum sjálfum, það er ekki sett í hann bragðþykkni eins og algengt er.

Búmm: kurlað súkkulaðið (,,80%'') sér um að feykja manni úr stólnum og sokkunum af fótum manns í bragðrænni tortímingu sjálfsins. Kornastærð súkkulaðinsins spannar vítt svið, allt frá fíngerðum salla drefðum um ísinn sjálfan til bruðvænna mola á stærð við malarvölur.

Þetta er að vísu allt saman talsvert meira fitandi en tékkneska góðgætið, en flugmiðar eru dýrir og ekki þarf að fara lengra en út í Hagkaup fyrir ísinn. Því mæli ég með honum sem traustu næstbesta.

miðvikudagur, apríl 21, 2004

Um helgina passaði ég tvær litlar frænkur, aðra fjögurra ára og hina eins og hálfs. Þessi eldri er hress og skemmtileg, með rauða slöngulokka. Hún var að bora í nefið fyrir háttinn með opinni hendi eins og barna er siður. Hún vann af nokkru kappi og boraði gat á nefið á sér! Það spýttist barnablóð um allt, yfir náttfötin hennar og skyrtuna sem ég var í. Faðir minn klæddist þessari skyrtu í sameinaðri hátíð: giftingunni sinni og skírninni minni. Það lúkkaði furðu vel, ferskar blóðsletturnar á bláum röndunum.

Í dag aðstoðaði ég svo við uppsetningu listasýningar með berum höndum.