minns

en ekki þinns

mánudagur, febrúar 19, 2007

the Egyptian Races


Egyptian Races, originally uploaded by krilli.

Stundum kannast maður við eitthvað. Stundum veit maður hvaðan, stundum fær maður spennandi og dularfulla nostalgíubólu á heilabörkinn sem maður reynir að sprengja.

Stundum veit maður ekki einu sinni af því að maður kannist við það og þekkir það bara. Heilsar því ekki einu sinni. Gamall fjölskyldumeðlimur sem maður hefur hitt endalausa morgna við matarborðið.

Stundum er maður bara búinn að gleyma því að maður sá það í National Geographic, en stundum er það greypt í forfeðraminnið.

Við vissum öll að hjólabretti meikuðu fullkomið sens þegar þau loksins komu. "Hey auðvitað."

Mómentið þegar sólbrúnir freðhausasnillingar í Kalíforníu skrúfuðu hjól undir spýtu á skökkum þriðjudagseftirmiðdegi gerði gat á enn einn endalausan fóstursekkinn. Hómó tekur heiminn í kring um sig og býr til Uppskrift að Tæki, og Tækið passar á Útlim. Teygir hann og breytir honum.

Fóstursekkurinn sprakk þegar hjólabrettið var rekið í himnuna innanfrá, og bylgjurnar ferðuðust þúsundir ára aftur í tímann.

Kynslóðir egypskra málara vissu ekki alveg af hverju þeir gerðu það sem þeir gerðu, en þeir vissu samt að svona ættu feður þeirra og mæður að standa þar sem þeir máluðu þá á veggi.

Einn góðan veðurdag í Kaliforníu myndi Tækið koma í heiminn, og Útlimirnir væru tilbúnir.

Fjórir sólbrúnir forngæjar olla sér nú loks og grænda um heiminn að handan.

Peace out dudes

Klúbburinn

Ef maður spyr símaskrána um "tré* hafnarfjörður" fær maður upp lista af númerum. Hvers vegna eru númerin fleiri en eitt, þeir þekkjast allir? "Djöfullinn sjálfur", sagði einn, "vélarnar eru allar uppteknar. Prófaðu að heyra í honum Jóni Stefáni í Aðalvík". Ég hafði hringt í Jón Stefán sem hafði á þennan sama yndislega trésmiðshátt afþakkað verkið.

Í góðærinu mjálma sagirnar undir símtalinu á trésmíðaverkstæðið. Vélarnar eru allar uppteknar og mér heyrast menn varla hafa tíma til að klóra sér í skegginu. Það þarf að smíða vínskápa og skartgripahillur og tvöfaldar bílskúrshurðir. Gósen gósen.

Ég hringdi mig áfram niður listann og Hurðir og gluggar ehf. hafa tíma. Maðurinn þar var mildur og hlýr í símann eins og sá sem beitir musteri sínu við vinnuna, sagar og borar og neglir í gleði. Hendur og hjarta smíða hurðir og góðærisglugga, og renna MDF-plötum gegn um sagir fyrir káta hátalarasmiði. Ég er viss um að þeir eigi nokkra góða one-linera handa mér þegar ég kem.