minns

en ekki þinns

mánudagur, júní 16, 2003

Sparslað í haustönnina - svona er síðbúna MAL01 verkefnið mitt:

99 Talað er um málhreinsun og málrækt? Hvað er sameiginlegt í málhreinsun og málrækt? Og í hverju birtist munurinn á þessum tveimur hugtökum? 66

Já, talað er um málhreinsun og málrækt. Þyki einhverjum þessi staðhæfing undarleg og óumbeðin er bent á stóreflis spurningamerki hér: http://www2.fa.is/deildir/Islenska2/503/mal/index.html sem ég hefni mín nú fyrir.

&emdash;

Ef málhreinsun er ígrip eftir á, er málrækt fyrirbyggjandi viðleitni. Samkvæmt þessari sýn á orðin tvö er tungumálið eitthvað tiltölulega heilagt sem ber að 'vernda'.

Það er líka vel hægt að hugsa sér málið sitt sem eitthvað fallegt og skemmtilegt sem maður fékk gefins &emdash; kaupauki! &emdash; þegar maður skráðist í Þraukklúbbinn Frón (þetta átti að vera sniðug líking við fæðingu mína sem íslendingur). Málrækt getur því verið sjálfsögð, skemmtileg og svo-gott-sem-listræn iðja sem er manni nautn á því plani að hún steinhættir að vera kvöð. Þá verður málhreinsun gjarnan líkari undarlegum fasisma, skipulögð af mönnum sem virðast trúa því bjargfast að til sé bæði eitthvað 99 rétt 66, og undarlegur mótframbjóðandi þess, 99 rangt 66.

Ég er ekki alveg viss um að allir átti sig á því til hvers er verið að varðveita íslenskuna. Ég sjálfur er vissulega að einu hundraði hundraðshluta sammála þessu: 99Móðurmál er mönnum andlegt umhverfi og sá sem týnir því glatar hluta af uppruna sínum.66 Þetta þyrfti þó að prenta aftan á mjólkurfernurnar til að smita fleiri af skilning.

Hér erum við þó komin með sameigindi málhreinsunar og -ræktar: að varðveita andlegt umhverfi Íslendinga (og nokkurra Þjóðverja sem ekki má gleyma), að passa upp á að skrýtnir íslendingarnir haldi áfram að vera skrýtnir íslendingar. Kannski þó að gæta þess að íslendingar geti áfram talað við íslendinga. Ég kvíði þeim degi þegar verkfræðingurinn talar ensku við tannlækninn sinn því úrkynjað stéttamál þeirra hvors um sig verður ósamhæft hvort öðru.

Ég er sammála málrækt. Ég er sammála henni frá efsta toppi ofan í neðstu tær. Eigi maður eitthvað gott á maður að gera eitthvað gott fyrir það svo það a.m.k. haldi áfram að vera gott ? og helst batni! Búa til orð ný og góð yfir nýja hluti og góða svo manni líði vel í munni og höfði.

Ég er sammála málhreinsun. Ég er sammála henni þegar orð er nógu afleitt til að það eigi dauða skilinn (Yman-ið var til dæmis vond hugmynd). Ég er það þó ekki þegar hún verður að hreinlætisæði, þráhugamáli sem miðar að því að eitra allt í burtu. Svo maður lagi Einstein aðeins til: ganga ber nógu langt, en aldrei lengra.