minns

en ekki þinns

þriðjudagur, júlí 18, 2006

tollur.is

Tollskrá íslenska lýðveldisins er skemmtileg.

Það er flóð af alls kyns drasli inn í landið, og þjónar okkar á Alþingi hafa þurft að setja upp hárfínt skilgreininganet til að ýmist hvetja eða letja menn til að sanka að sér æskilegum hlutum og óæskilegum. Takk fyrir það!

Ein af fáum undantekningunum úr flokknum glervörur (sem er lítið tollaður sýndist mér) eru augu úr gleri. Þið vitið, eins og maður setur í brúður. Ég er alltaf að panta augu af ebay og setja í brúður.

Í 95. kafla, leikfangakaflanum, er svo sérstakur flokkur fyrir brúður í mannsmynd. Hann er tollaður í klessu.

Athyglisvert þótti mér að sjá að það er hvorki tollur af kjarnakljúfum né eimreiðum. Úr þessu má greinilega lesa framtíðarstefnu stjórnvalda í samgöngu- og orkumálum.

3000 tonna hálendis-Shinkansen ryðst yfir mosa og grjót, knúin íslenskri kjarnorku. Fram fram, aldrei að víkja.

A eða e?

8540 Varmaskauts-, kaldskauts- eða ljósskautsrafeinda-
lokar og -lampar (t.d. lofttæmdir eða gufu- eða gas-
fylltir lokar og lampar, kvikasilfursafriðilslokar og -
lampar, sjárör, sjónvarpsmyndavélalampar):


Aðrir lokar og lampar:

8540.8100 Viðtækja- eða magnaralokar og -lampar: A: 7,5% E: 0%

mánudagur, júlí 17, 2006


Fimm fjögur!
Fjögur fjögur!


Ahh, þetta er svo ÆÐISLEGT

Mamma benti mér á

Arrgh, ég er búinn að hanga á netinu og gera ekki rassgat í næstum því allan dag. Ég geri þetta þegar ég er stressaður.

Ég var að skila lokaútgáfu til prentunar af aðalsöluvarningnum, lúxus-breiðmynda-landslagsdagatalinu. Svaka stöff. Ég held ég rukki auka taugataxta fyrir dagatöl í framtíðinni. Það er fátt verra en að setja Sumardaginn fyrsta á vitlausan stað og vita af kaffi- / stressruglinu úr sér uppi á vegg á þúsund heimilum í Þýskalandi. Villurnar koma yfirleitt ekki í ljós fyrr en árið eftir, og þá naga þær mann ennþá meira.

Þess vegna er ég stressaður, og þá fæ ég skrýtna áráttu fyrir því að athuga vandlega og ítrekað hvort það sé komið eitthvað nýtt á internetið. Á sömu síðurnar, aftur og aftur. Þetta er alveg nákvæmlega eins og að þvo sér 20 sinnum um hendurnar og passa að læsa útidyrahurðinni átta sinnum.

Bleh! Ég finn hvernig klær geðveikinnar læsast í mig. Kominn tími á að hjóla meira um og sulla minna í kaffi -- og gefa sígarettunum frí.