minns

en ekki þinns

mánudagur, september 18, 2006

Pass

Árstíðaskipti! Jebb.

Nú hryllir líkama minn við hveiti-mjólkur-fitu-kjöt-ostagumsi. Veit ekki hvað veldur, en ég held að þetta sé næringarsystemið að hafna glúúteni og laktósa. Hómópati einn ráðlagði mér að forðast slíka hluti.

Í sömu sjálfshjálparferð bannaði téður hómópati mér að drekka bjór. Ég rifjaði upp sjálfdvínandi áhuga á grjónagosinu, og fannst það alveg geta passað að morknunarstuðullinn héldist í hendur við bjórdrykkju. Fljótlega eftir þetta hætti mig hreinlega að langa í bjór, og fór stuttu eftir það að sýna höfnunarviðbrögð við tilhugsuninni um bjór. Aðkenning af bumbult, og almennt óstuð gerði vart við sig að hinum fyrrum perlandi gyllta félaga.

Nú er sýstemið altsvo búið að stilla sig inn á að jú, glúten og mjólk séu hreinlega ekki málið, og ég er kominn með powerfully sannfærandi leiða á svo til öllum hentugum mat á Íslandi.

Mig dreymir um brún hrísgrjón og yndislegt gufusoðið grænmeti. Best að prjóna sér rúllukragapeysu með köðlum á, og eina úr angóru.

Greiningaraðferð hómópatans var eftirminnileg í meira lagi. Við Hewlett Packard Family Multimedia Center tölvuna á hómópatastofunni var tengt lítið plastbox með USB-tengi. Á plastboxinu var mynd Da Vincis af manninum sem er fastur í kúlu. Þar hjá voru nokkur önnur tengi, og lágu úr þeim snúrur í flækju. Flækjan var tekin, og greind sundur í nokkrar lykkjur. Ein lykkja var svo fest um hvorn úlnlið, sitt hvor á ökklana og ein lykkja um ennið.

Þarna sat ég svo og minnti sjálfan mig á tilraunadýr í B-vísindahrollvekju. Nú skyldi sko ég aldelis útúrFrankensteinaður á því. Flísklæddur hómópatinn sneri tölvuskjánum að mér, setti í gang og afsakaði sig út úr herberginu. Tækið væri jú afar næmt, þar sem það væri kvantúm fýsík tæki.

Á skjánum gat að líta Windows-sýkedelíu. Einhver hafði setið heima hjá sér og hannað hómópatískt viðmót af einlægni, og notað til þess alla litina í litaspjaldi Windows 95. Mauve og fuchsia og teal. Einn litur á hvern takka.

Progress bar.

Fljótlega fóru að koma generic nýaldarhljóð úr tölvunni, eftir því sem á mælinguna leið. Fuglahljóð og vatnsdropar, og gong-sampl.

Meiri progress bar, annars þögn í IKEA herberginu. Maður minntist ennisólarinnar og fannst eitthvað mistöff þarna. Hómópatinn eflaust frammi á gangi horfandi út í loftið í bosmamikilli Skátabúðarpeysunni.

Svo kom HA-LELUJA sampl, aðeins of stutt svo það klipptist aftan af hljóðinu. Haa-leluujg. Hómópatinn inn, niður fyrir framan tölvuna og verður þungt hugsi.

Upp úr því kom að ég ætti að forðast glúten, mjólk og bjór, og að ég ætti helst að fá mér skartgrip með TÓPAS-stein. Matarráðleggingarnar reyndust vel. Baldur kvaðst eiga handa mér einhvers staðar ELVIS-hring með TÓPAS-stein. Þá ætti hamingjan að vera fullkomin.