minns

en ekki þinns

miðvikudagur, mars 14, 2007

14. 3. 2007.

Mamma er í Blaðinu í dag, hún er á blaðsíðu 36. Fín mynd af henni.

Aðalsjálfsuppfyllandiprófetían hennar er að það sé ekki hægt að taka myndir af henni. Þessi mynd er alveg ágæt, en hvernig hún sjálf er falleg er mjög spes og fágætt. Hún veit ekki hvað hún er falleg af því hún hefur aldrei séð neinn sem er eins falleg og hún - allir hinir fallegu eru einhvernveginn öðruvísi fallegir. Festist ekki alveg á filmuna þarna.

Fín mynd af henni samt.

Kinnbeinin og andlitsumgjörðin laumast til að vera stórbrotin. Flókið og víkinga-rammbyggt en samt fínt svo fínt eins og kínapostulín. Andlit móður minnar er búið til úr þannig línum og lögunum sem eru einmitt þau erfiðustu að teikna. Fattiðimig? Íslenskt og sjaldgæft og ég á það.

Mig hefur svimað yfir því oft hvað ég á sérstaka konu og einstakan mann fyrir foreldra.

Pabbi er aftur á móti það augljóslega myndarlegur að ég held t.d. að hann hljóti að hafa átt öðruvísi líf en flestir. Viðmót fólks. Veit ekki hvernig það er. Ótrúlega fallegur maður. Blanda af hvössum og skrítum vestfjarðalínum og rúnningu og fyllingu af Suðurlandi. Massíft.

Útlendingum hefur tekist að lýsa þessu: "You look like an actor", missti Suðurameríkubúi út úr sér. Held hann hafi blúbsað þessu út úr sér í einlægni því þetta er einmitt málið.

He looks like an actor. Góður líka, góður svo góður, nema þegar hann er svangur þá koma augnabrýrnar og éta sálina þína eins og morgunfúll Aphex twin. Svo er hann aftur góður. Skíni skín!