minns

en ekki þinns

mánudagur, október 23, 2006

Í gær

Í gær fór ég í heimsókn til Jónasar. Toggi var þar. Við fengum köku og kaffi. Svo sat ég í sófanum hans Jónasar og kláraði þar að láta rjúka úr hausnum á mér eftir daginn. Við töluðum um tónlist, og Jónas spilaði fyrir mig skemmtilegt.

Skemmtilegt: Eldra M83, eitthvað af Datarock, eldra Khonnor. !!!, tsjigg tsjigg tsjigg, líka mjög fínt. Vildi að ég hefði dottið inn á þetta þegar það var nýtt - hefði getað verið búinn að hlusta lengur.

Svo töluðum við um stærðfræði og Penrose og heiminn og raytracera og gin og tóník.

Svo töluðum við um Llífið. Jónas er alveg klár í Llífinu, og það var mjög fínt. Seriously fínt eiginlega, tindrandi gosvatn á þornaðan pimpstein minn.

Við plönuðum!
Ég fór að hlakka til föstudagsins - að borða túnfisksteik hjá J., og ég fór líka að hlakka til næstu annar. Dugnaður í BS-verkefni, vonandi á launum, eiga sér líf og föt.

Ég hlakka til næstu annar!

Ég mun eiga peninga. Það verður hóflegt álag. Ég verð að vonandi vonandi að vinna brjálæðislega spennandi lokaverkefni - og var BEÐINN um að vinna það.

(Að hafa verið beðinn að vinna e-ð verkefni hljómar eflaust meira impressive en það er - ég er enginn leetbolti, en ég er frekar þverfaglegur og hef haft áhuga á hingaðtil-pælingum þeirra sem ég verð að vinna fyrir, svo þeir ákváðu að spyrja mig hvort ég gæti tekið að mér að skoða og vinna við ákveðna hluti. Mjög gott samt! Mjög mjög!)

Og ... ég treysti mér í þetta. Það er alveg mjög stór partur af því að ég nái að finna til einhverrar tilhlökkunar. Ég hef alltaf verið brjálæðislega klár, en hef alltaf verið jafnstúbid á meðan. Svarthvítur! Núna er ég búinn að sjá að kubbarnir sem ég er búinn að hlaða undir crappy partana af sjálfum mér eru að virka, og svei mér ég held að ég hafi meiraðsegja raðað kubbunum flott. Hah!

Það er langt síðan ég hef hlakkað til einhvers. Ég er búinn að vera að bíta á jaxlinn, þreyja þorrann, tyggja hrökkbrauðið í alveg nokkur ár núna, og men ef mér sýnist ekki vera ljósglæta þarna að ofan. Haldið áfram að moka krakkar, við erum að fara að koma upp úr hinumegin.

Síðan fór ég heim. Þar voru foreldrar mínir að hýsa, fóðra og skemmta tangókennarapari frá Argentínu, þeim Javier og Mariu. Þau voru hreint frábær, verður að segjast. Þau hafa verið að kenna tangó í sex ár, og ferðast stundum yfir hafið og kenna grábleika stofninum að mauvast á gólfinu.

Þau voru MJÖG FÍN. Við töluðum um maté og argentínska háskóla og hvernig það er að vera pró tangókennari. Maria sagði að það væri sennilega auðveldari ákvörðun að gerast tangókennari í landi eins og Argentínu, þar sem allt er í rugli og maður er ekkert vissari um að fá proper vinnu og fastar tekjur þó maður fari í ferkantað djobb. Þá er alveg eins gott að gera bara það sem maður vill, eiginlega bara betra.

Meira um þau seinna, eflaust. Og þó: Argentínumenn eru allir langleitir eða fíngerðir. (Hef núna hitt þrjá og það hefur aldrei klikkað.) Þau gáfu mér líka restina af maté-poka þegar þau fréttu að ég drykki dáldið maté, og að 100gr poki kostaði íslenska hundraðkalla.

6 Comments:

Anonymous Nafnlaus said...

Hvenær ætli mauv/mauf komi í orðabókina?

11:47 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Jó! Hvaða snilldarlokaverkefni ertu að fara að gera.

Það er gaman að eiga föt. Og vera klár.

2:32 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Afsakið spurningamerkisleysið að ofan. Það var ekki póstmódernískt og meðvitað.

2:33 e.h.  
Blogger krilli said...

Ol in gúd tæm

2:38 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

og í dag gaf góða fólkið okkur heimatilbúið dulce de leche sem þau skiptust á um að hræra í í 2 tíma

11:26 e.h.  
Anonymous Nafnlaus said...

Kemur mér endalaust til að brosa :) og það er svo gott. En já talandi um að koma upp hinumegin þá er það ótrúlega mögnum tilfinning og gerir einhvern vegin allt streðið þess virði!

Sé þig á bakkanum :)

4:45 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home