bo, Selecta
Skóli skóli.
Ég ætlaði að splæsa í örsmáan lúxus um daginn, pínulítinn eiginlega, og fá mér Eitt sett á eftir hrísgrjónamáltíðinni. Fullkomið munkalíf, örlítið brotið upp til endanna.
Af hámarks útsjónarsemi hafði ég safnað saman 70 krónum í vasanum yfir vikuskeið, en sjálfsalinn át hann. Gormurinn snerist alveg, en ekkert Eitt sett datt niður. Ég sparkaði í kassann en ekkert gerðist, nema að mér fannst ég myndi hafa litið allkjánalega út þegar ég var að reyna að ná kúl höggi á hlunkinn.
Næst íhugaði ég að valda 70kr. tjóni á þjónustuvélmenninu og verða þannig kvitt við Selecta-sjálfvirkniveldið.
Degi síðar sá ég Frank skólabróður minn og snilling mikinn þar sem hann stóð vonsvikinn á svip að sparka í sama sjálfsala. Þá hafði kassinn tekið 140 krónurnar hans og ekki látið hann hafa neitt nammi.
Við syrgðum féð sem við höfðum látið glepjast til að láta renna ofan í smurða rauf kassans, við klingjandi gleði úr maga dýrsins. Klíngklíng DEPOSIT 60 klíng-hæ! SELECT PRODUCT Klirríklíng!
Frank er bæði fyndinn og séður. Í fyndni sinni sendi hann Selecta alvarlegt kvörtunarbréf og bað um 210 krónur til baka. Af því hann er séður þá setti hann reikningsnúmerið sitt með.
Ég veit ekki af hverju Selecta borgaði honum til baka. Kannski eru þeir fyndnir líka. 70-kallinn minn er nú á leiðinni í glóðvolgri millifærslu, takk fyrir Frank.
3 Comments:
Jibbíjibbíjeij! Sigur! Þessi saga gladdi mitt litla hjarta, og máttu endilega þakka skólabróður þínum, fyrir mína hönd, fyrir sérdeilis vel valin viðbrögð.
Þó verð ég að segja að fyrir mitt leyti er Eitt sett aldeilis enginn pínulítill lúxus, heldur lakkrís og nóasíríussúkkulaði í einum bragðgóðum pakka. Hvað gæti mögulega verið meiri lúxus? Og þessi sjálfsali! Þvílík dirfska! Að meina fátækum námsmanni um slíka alsælu, sem síðan fyllir einnig upp í hornin sem hrísgrjónin náðu ekki að fylla útí! Þetta jaðrar við mannréttindabrot. En ah!
Síðan fer maður að hugsa út fyrir litla Ísland og skammast sín fyrir að leggja sér þetta orð, "mannréttindabrot", til munns á Frónni, verandi innfæddur. Og þá sérstaklega í sömu málsgrein og minnst er á sælgætisskort á Íslandi. Fuss og svei. Hvað er ég að þvaðra?
Báðir aðilar hafa fengið endurgreitt.
Það búið að valda Selecta nógu miklum skaða með þessari umræðu. Ég legg til að umræðunni verði lokað bæði innan vefsins sem utan.
Hjörtur Örn Hjartarson
framkvæmdastjóri Selecta Íslandi.
Blessaður, Hjörtur!
Frétti að þú værir hættur að berja konuna þína, til hamingju með það :)
Skrifa ummæli
<< Home